Fyrir hverja hentar námskeiðin

Við hvetjum fyrirtæki sem hlotið hafa gæðavottun Vakans eða vinna að henni að skoða hvaða námskeið henta. 

 

Námskeiðin henta jafnt matsölustöðum, kaffihúsum og skemmtistöðum. Efnið skerpir á réttum vinnubrögðum og er gagnleg upprifjun fyrir reynda starfsmenn, kennsla og leiðrétting fyrir aðra.  

Námskeiðin eiga erindi við starfsmannahópa til að samræma vinnubrögð og opna umræðu sem ekki er alltaf hægt að sinna á vinnutíma.  

Eigendur veitinga og gistihúsa sjá um að panta námskeiðið og boða sitt starfsfólk.

Endurgreiðsla

Veitingamenn greiða fyrir námskeið og eiga svo kost á því að sækja endurgreiðslu til starfsmenntasjóða fyrir starfshópinn í heild. Nánari upplýsingar um endurgreiðslu má finna á sameiginlegri upplýsingasíðu þeirra:

Hægt er að sækja um endurgreiðslu á allt að 75% af kostnaði fyrir almennt starfsfólk. Fyrirtæki geta sótt um endurgreiðslu strax og reikningur hefur verið greiddur og eru styrkir afgreiddir innan mánaðar.  

Hvar eru námskeiðin haldin

Veitingastaðir bjóða mismunandi þjónustustig auk þess sem framsetning getur verið ólík eða tengd ákveðnu þema. Það hefur komið best út að taka kennsluna út frá verkfærum og aðstöðu á þeim stað sem starfsfólkið er að störfum. Þannig er ekki verið að eyða tíma í þætti sem ekki nýtast og tekin raunhæf umræða um það sem upp kemur í aðstæðum á viðkomandi vinnustað.  

Aðstaða fyrir námskeið

Á flestum námskeiðum þarf að vera aðstaða og áhöld fyrir litla uppdekkingu, sýnikennslu á barvinnu og glærukynningu. Það er þó ekki algilt og eru leiðbeinendur með lista yfir verkfæri og áhöld og geta verið innan handar með að útvega það sem vantar.  Einnig er hægt að útvega aðstöðu fyrir námskeið í heild.

Glærur    

Gott er ef skjávarpi eða skjár er til staðar sem þátttakendur geta séð á. Sumir nýta sjónvarpsskjá. Einnig geta leiðbeinendur útvegað skjá ef vantar. 

Dekking og borðaþjónusta                                                                       

Aðstaða og áhöld fyrir uppdekkingu fyrir 4- 6 manns, aðalréttadiskar og bakkar. Leiðbeinendur hafa venjulega milligöngu með að tína þetta saman með starfsfólki í upphafi.

 

Barhluti                                                                                                       

Best er að taka þennan hluta á barnum á staðnum. Ef ekki er bar á veitingastaðnum er tekin umræða um borðvín, drykki, minatura eða aðrar drykkjarvörur sem seldar eru á viðkomandi veitingastað.

Leiðbeinendur eru með lista yfir verkfæri og áhöld og geta verið innan handar með að útvega það sem vantar.

 

Öryggisnámskeið

Leiðbeinandi útvegar þau skyndihjálpartæki sem notuð eru á námskeiði.

Tungumál

Námskeiðin eru í boði á íslensku og ensku.  Oft er starfsmannahópurinn blandaður og umræðan er eins og best hentar hverju sinni á ensku eða íslensku til að allir nái að vera með. Glærur eru ýmist á íslensku eða ensku eftir því hvort hentar betur.

Hægt er að fá endurgreiðslu fyrir aðkomu túlks ef áhugi er fyrir öðrum tungumálum.

Önnur námskeið sem Skerpa mælir með

Vínskólinn býður upp á áhugaverð námskeið um vín og vínmenningu og leiðbeinendur þar með mikla þekkingu á sínu fagi. Námskeiðin eru óháð fræðsla á mismunandi erfiðleikastigum og því góður kostur allt frá skemmtilegu hópefli til djúprar fagumræðu.  

Rauði krossin býður upp á hentug námskeið í skyndihjálp og öryggismálum. Það er alltaf gagnlegt að sækja sér þekkingu í skyndihjálp og umhugsunarvert fyrir veitingahús að sjá ávalt til þess að starfsfólk hafi nægjanlega þekkingu á viðbrögðum og endurlífgun ef til áfalla kemur. 

Leynist framreiðslumaður framtíðarinnar í þínu fyrirtæki

Framreiðsla er samningsbundið iðnnám sem kennt er við matvæladeild Menntaskóla Kópavogs. Námið tekur þrjú ár og endar með sveinsprófi.  Starfsfólk sem unnið hefur lengi í faginu getur átt kost á því að fá hluta námsins metinn með raunfærnismati og um að gera fyrir veitingamenn að styðja sitt starfsfólk í slíku ferli.  Eftirspurn er mikil eftir fagmönnum í dag og því mjög jákvætt fyrir iðngreinina að styðja við þá einstaklinga sem áhuga hafa á auknum réttndum.   Framreiðslusveinar geta svo unnið áfram að meistararéttindum sem veita aðgang að nemakennslu og fyrirtækjarekstri.  

Myndir á vefsíðu og bloggfæslum eru eign Skerpu og notkun einungis heimil í samráði við eigendur.

Skerpa námskeið  

Skerpa@outlook.com